Hoppa yfir valmynd

Hvernig skal búa til lykilorð

Lykilorð

Í daglegu lífi treystum við á notendanöfn og lykilorð til að tengjast flestum þjónustum á internetinu, hvort sem það eru samfélagsmiðlar, tölvupóstþjónusta, mynda- og gagnageymslur, önnur þjónusta eða smáforrit. Á hverju ári verður fjöldi gagnaleka þar sem lykilorðum notenda er lekið. Geta þá glæpahópar nýtt sér lykilorðin til þess að komast inn á aðganga fórnarlamba sinna. Þar sem fólk á það til að endurnýta lykilorð eða nota mjög svipuð lykilorð auðveldar það einnig glæpahópum að ná tökum á öðrum aðgöngum fórnarlambsins en þeim sem gagnalekinn nær til.

Til eru margar aðferðir við að verja sína aðganga eins og að hafa flókin lykilorð, fjölþátta auðkenningu og nota lykilorðabanka.

Sterk lykilorð

Þegar þú býrð til lykilorð er mikilvægt að velja sterkt lykilorð, sem samt sem áður er hægt er að muna. Það er algeng mýta að lykilorð eigi að vera flókin, samhengislausir stafir og tákn sem er varla hægt að muna röðina á.

Í dag eru löng einföld lykilorð talin sterkari en stutt og flókin. Þar með er betra að mynda lykilorð úr nokkrum handahófskenndum orðum (3-5) eða samhengislausa setningu úr nokkrum orðum með mislöngum tölum blönduðum inn frekar en að velja fáa stafi og tákn sem erfitt er að muna. Passa verður samt að velja ekki stutt orð þannig að lykilorðið í heild sé stutt.

❌ GK“$/45gS

❌ Siggamin060606

❌ á4ær3bær13

✅ Jolasveinninn?elskarpaskamat#3#i&oktober

✅ Gulraetur16Buxnastrengur23Litliputti505

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að þessi aðferð er talin betri en að búa til stutt og flókin lykilorð. Það er ekkert öryggi fólgið í því að reiða sig á of flókin lykilorð sem maður getur ekki munað. Að muna nokkur orð eða samhengislausa setningu er auðveldara en handahófskennt stafarugl.

Hægt er að lesa meira um þessa aðferð hér:

https://www.ncsc.gov.uk/blog-post/the-logic-behind-three-random-words