CERT-IS varar við yfirstandandi SMS svikaárás sem beinist að íslendingum.
Svikin felast í því að viðkomandi fær SMS skilaboð sem segir að óheimil færsla hafi átt sér stað á kreditkorti þeirra og gefinn er upp tengill til að fá upphæðina greidda inn á kreditkort.
Svik af þessu tagi eru ekki ný af nálinni en mikil aukning á svikum af þessu tagi í ágústmánuði. Má þar nefna að Borgun, Pósturinn og Skatturinn hafa öll lent í að SMS skilaboð séu send í þeirra nafni til að fá fólk til að gefa upp kreditkortanúmerin sín.
Meðal algengra aðferða við slík svik í dag má nefna:
- SMS skilaboð með tengil sem biður um kreditkortaupplýsingar til að fá pening endurgreiddan.
- Símtöl þar sem fólk er beðið um kreditkortanúmer til að borga fyrir læknisþjónustu, þar sem forgreidd COVID-próf eru helsta „varan“ sem verið er að selja
- Tölvupóstar með tenglum sem reynir að veiða notandanöfn og lykilorð inn á einkabanka eða tölvupóstföng starfsmanna fyrirtækja.
Af gefnu tilefni er því vert að rifja upp nokkur góð ráð hvað varðar sendingar sem þessar.
Svikarar orða skilaboðin þannig að mikil pressa er sett á fórnarlömbin og það látið líta út að ef ekki er brugðist við samstundis geti viðkomandi orðið fyrir skaða. Mikilvægt er að rýna vel öll skilaboð og forðast að láta undan slíkum þrýstingi.
Aldrei skal smella á tengla í slíkum póstum og aldrei hringja í uppgefin númer né senda póst á uppgefin netföng í slíkum póstum.
Best er að hafa samband við þjónustufyrirtækið sem minnst er á í skilaboðunum með því að finna símanúmer eða netfang þeirra með öðrum leiðum, svo sem með því að fara inn á ja.is eða 1819.is og fletta upp nafni fyrirtækisins þar. Þar má yfirleitt bæði finna netföng, vefsíður og símanúmer.
Ef smellt er á tengilinn og upplýsingar látnar af hendi skal umsvifalaust hafa samband við viðeigandi þjónustufyrirtæki og óska ráðlegginga. Gott er að vista þjónustu- eða neyðarnúmer þjónustufyrirtækja sinna í síma til að hraða fyrir slíku ferli.