Þann 28. Janúar stóðu Almannavarnir og CERT-IS fyrir umfangsmikilli skrifborðsæfingu þar sem hátt í 200 sérfræðingar úr ýmsum geirum komu saman til að ræða og greina ástandið sem myndast þegar allir sæstrengir til Íslands rofna. Markmið æfingarinnar var að meta viðbúnað Íslands til að takast á við skyndilegt rof á sæstrengjum og var hún hönnuð til að efla samvinnu, samhæfa aðgerðir og auka skilning á viðbragðsgetu landsins við sæstrengjarofi.
Framkvæmd æfingar
Sett var upp atburðarás með stigmögnun í fjórum fösum. Þátttakendur þurftu að bregðast við í samræmi við viðbragðsáætlanir, meta áhættu og samræma aðgerðir milli stofnana og fyrirtækja. Í fyrsta fasa var sviðsett aukin hætta á stríðsátökum í Evrópu auk sæstrengjaslita innan Evrópu. Annar fasi fjallaði um slit á öllum sæstrengjum til Íslands nema einum. Í þriðja fasanum var Ísland ótengt við umheiminn í þeim skilningi að allir sæstrengir voru rofnir, áhersla lögð á greiningu útfalls, viðbrögð og samhæfingu. Fjórði og síðasti fasi fjallaði um gervihnattalausnir, forgangsröðun bandvíddar og langtímaviðbúnað. Eftir hvern fasa var lærdómur dregin saman og honum deilt með öllum þátttakendum. Einnig fylltu þátttakendur út eyðublöð sem notuð verða til að vinna lokaskýrslu.
Meðal þátttakenda voru fulltrúar frá stjórnvöldum, fjarskipta-, fjármála-, heilbrigðis-, orku-, flutningsgeiranum og öðrum lykilstofnunum sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í viðbragði við slíkri krísu. Í kjölfar æfingarinnar var haldin pallborðsumræða þar sem þátttakendur ræddu helstu áskoranir og þann lærdóm sem má draga af æfingunni.
Næstu skref
CERT-IS mun vinna úr niðurstöðum æfingarinnar og leggja til úrbætur þar sem þörf er á. Einnig verða niðurstöður nýttar til að móta næsta fasa verkefnisins Ísland Ótengt. Þar verður farið í hnitmiðaðar raunprófanir til að meta hvort virkni kerfa sé í takt við væntingar. Frekari upplýsingar um næstu skref verða birtar síðar. CERT-IS þakkar öllum þátttakendum fyrir virka þátttöku og faglegt framlag til æfingarinnar. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.