CERT-IS varar við svindlsíðum sem auglýsa á Facebook.
CERT-IS þykir ástæða til að vara við auglýsingum fyrir vefverslanir sem bjóða upp á vörur á miklum afslætti. Svikararnir birta auglýsingar sem vísa á svikasíður sem líkja eftir vefverslunum fyrir tísku- og merkjavörur á allt að 90% afslætti. CERT-IS hefur vísbendingar um að svindlararnir séu fljótir að setja upp nýjar síður og birta auglýsingar á Facebook.
Þegar verslað er á síðunum berst kvittun í tölvupósti sem í stendur að færslan í yfirliti greiðslukorts sé frá öðrum söluaðila en búist mætti við. Er þetta gert til að draga úr efasemdum aðila sem reka augun í sérkennileg færslunöfn á greiðslukortum og tilkynni þ.a.l. ekki sínum viðskiptabanka eða kortafyrirtæki um svikin.
CERT-IS hvetur alla til að horfa gagnrýnum augum á auglýsingar sem lofa lygilegum tilboðum. Gott er að fara yfir færslulista greiðslukorta og vera í sambandi við sinn viðskiptabanka eða kortafyrirtæki ef eitthvað lítur grunsamlega út. Ef eitthvað er of gott til að vera satt, er það yfirleitt þannig.
Eftirfarandi eru skjáskot af svikasíðum.