EN

CERT-IS varar við svikaherferðum

Síðustu daga hefur Netöryggissveitin séð aukningu í svikaherferðum í nafni sendingarfyrirtækja. Aukninguna má rekja til stórtilboðsdagsins „Dagur Einhleypra“ þann 11. nóvember þar sem verslanir kepptust við að hafa tilboð á vefverslunum sínum og bjóða upp á heimsendingarþjónustu.
Svikarar nýta sér oft viðburði sem þennan til að hrinda af stað svikaherferðum og má búast við fleiri herferðum nú þegar „Svartur Föstudagur“ og „Netmánudagur“ eru í vændum.
Svikaherferðirnar virka þannig að sett er upp fölsk vefsíða þar sem notandi er minntur á að greiða sendingarkostnað vegna nýlegra vörukaupa.
Síður sem þessar verða sífellt trúverðugri og getur reynst erfitt að greina svikasíður frá raunverulegum greiðslusíðum.
Áður en kreditkortanúmer er gefið upp er því gott að staldra við og hugsa hvort það sé eitthvað sérkennilegt við greiðslusíðuna eða tilkynninguna.

Fáðu staðfestingu!

Ef upp kemur minnsti vafi um réttmæti kröfunnar skal hafa beint samband við flutningsfyrirtækið eða verslunina og fá réttmæti hennar staðfest.
Mælt er gegn því að tölvupóstinum eða smáskilaboðum sé svarað. Mun öruggara er að fara á vefsíður fyrirtækjanna og fá almennt netfang eða símanúmer eða hafa samband við upplýsingaveitur á borð við 1818 eða 1819.

Mikil tímapressa?

Svikaherferðir eru undir mikilli tímapressu áður en viðbragðsaðilar taka eftir þeim og fara í aðgerðir til að loka þeim. Af þeim sökum er orðalag í herferðum oft þannig að viðtakandi þarf að bregðast strax til að verða ekki fyrir tjóni.
Ef tímarammi sem er gefinn upp er naumur eða orðalag framkallar streituviðbragð fáðu þá staðfestingu!

Eðlilegt málfar?

Þó svikaherferðirnar verði stöðugt trúverðugri má oft finna málfræði- eða stafsetningarvillur sem ólíklegt er að sleppi í gegnum gæðaferla fyrirtækja.
Ef málfar hljómar vélrænt eða virðist vera bein þýðing af ensku yfir á íslensku fáðu þá staðfestingu!

Óljósar vörur eða sendingarnúmer?

Síður sem þessar innihalda oft óljósar upplýsingar um hvað er verið að rukka fyrir. Ef vörunúmer eru notuð frekar en vöruheiti eða ef sendingarnúmer er ókunnuglegt eða hreinlega vantar fáðu þá staðfestingu!

Smáskilaboð frá óvenjulegu nafni eða númeri?

Mikil aukning hefur verið á svokölluðum „smishing“ herferðum þar sem smáskilaboð eru notuð til að senda tengla á svikasíður.
Ólíklegt er að heiðarlegt fyrirtæki muni senda úr númeri eða nafni sem er ótengt fyrirtækinu að öllu leiti.
Ef nafn eða númer sendanda er furðulegt fáðu þá staðfestingu!

Scroll to Top