EN

Notkun VPN

Síðustu ár hefur það færst í aukana að fyrirtæki og stofnanir bjóði starfsfólki sínu að vinna heiman frá sér. Óhætt er að segja að COVID-19, heimsfaraldurinn, hafi hraðað þessari þróun.

Þessari þróun fylgja nýjar áskoranir á ýmsum sviðum meðal annars á sviði tölvuöryggis. Starfsfólk þarf að vinna með gögn á tölvunni sinni sem leynd hvílir yfir, t.d. persónugreinanleg gögn, viðskiptaskjöl og allskonar skjöl um hugverk sem eru í stöðugri þróun.

Netöryggi við heimanvinnu

Þegar vinnudagurinn fer fram inn á skrifstofum fyrirtækja eða stofnanna er séð til þess að tölvu- og netkerfið sé öruggt fyrir starfsfólkið sem er að meðhöndla viðkvæm gögn. Það á ekki við þegar unnið er að heiman, þar sem starfsmenn tengjast sínu eigin heimaneti til að vinna vinnuna sína. Mikilvægt er að atvinnurekendur hugsi út í net- og tölvuöryggi þegar fólk vinnur heiman frá sér.

Mikilvægt er að aðgengi að tölvunni sé takmarkað, hún á ekki að vera til notkunar fyrir neinn nema starfsmanninn sjálfan. Gagnageymsla tölvunnar ætti einnig að vera dulrituð ef hún kynni að glatast en öll helstu stýrikerfi bjóða upp á það í dag. Einnig er mikilvægt að muna að aðgengi að viðkvæmustu gögnum og forritum gæti þurft að takmarka. Þar sem hægt er ætti að nota fjölþátta auðkenningu eða skilríki sem gera stuld á auðkennum erfiðari.

Notkun VPN og varnir

Snjalltæki og varnir

Internet tengingar heima hjá fólki og snjalltæki sem tengjast sama þráðlausa heimaneti geta verið leið inn á allar tölvur fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Þegar margir aðilar nota sama net skiptir máli hvað hver og einn er að gera, er t.d. einhver heimilismaður að hala niður óþekktum hugbúnaði eða heimsækja óöruggar síður. Ef óværa nær fótfestu á einni tölvu getur hún dreift sér á aðrar tölvur og búnað sem tengd eru sama neti. Mikilvægt er að vélar séu með virka eldveggi og varnir gegn óværum en bestu lausnirnar í dag kallast endapunktsvarnir (e. end point protection) og veita mikið öryggi séu þær rétt settar upp og vaktaðar.

Til að auka öryggi sitt nýta margir vinnustaðir sýndareinkanet (e. Virtual Private Network), þá er hluti eða öll umferð frá tölvunni dulrituð og send í gegnum net atvinnurekandans. Með notkun VPN er hægt að nota kerfi sem eru sérstaklega varin. Ef öll umferð er flutt um VPN veitir það ákveðna vörn gegn hlerunum og breytingum sem og öryggisvöktun verður markvissari.

Scroll to Top