Fjölþátta auðkenning
Við getum sýnt fram á það hver við erum með þrenns konar leiðum
Eitthvað sem við vitum
Dæmi um þetta er lykilorð eða svör við öryggisspurningum eins og hvað hét fyrsta gæludýrið þitt?
Eitthvað sem við erum
Fingrafara- og augnskannar eru dæmi um búnað sem kannar þennan lið
Eitthvað sem við höfum
Kóði úr tvíþættu auðkennisappi er dæmi um þennan lið. Auðkennislyklarnir sem þurfti til að komast á heimabanka fyrir einhverjum árum eru einnig dæmi um þetta.
Fjölþátta auðkenning (e. multi-factor authentication, MFA) er tækni sem hefur orðið mun mikilvægari samhliða starfænni umbyltingu og aukningu í netárásum. Hún byggir á því að krefjast tveggja eða fleiri þátta til að staðfesta auðkenni notanda áður en aðgangur er veittur að tiltekinni þjónustu eða kerfi.
Öryggi í stafrænum heimi
Netárásir eru algengar og afleiðingar þeirra geta verið alvarlegar fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Algengar árásir eins og lykilorðsstuldur, netveiðar (e. phishing) og gagnaleka hafa sýnt fram á veikleika í hefðbundinni auðkenningu sem byggir einungis á lykilorðum. Lykilorð eru oft ekki nógu sterk, og jafnvel þegar þau eru sterk, getur notandi verið blekktur til að afhenda þau í gegnum netveiðiföng. Fjölþátta auðkenning eykur öryggið með því að bæta fleiri hindrunum við, sem gerir það mun erfiðara fyrir óprúttna aðila að komast inn í kerfi.
Hvernig virkar fjölþátta auðkenning?
MFA bætir við öryggislag með því að krefjast þess að notandi auðkenni sig með fleiri en einum hætti. Þetta er oftast gert með tvenns konar auðkenningaraðferðum:
- Lykilorð: Notandi slær inn hefðbundið lykilorð eða PIN-númer.
-
Viðbótarþáttur: Þetta getur verið:
- Auðkenningarkóði sem er sendur í gegnum SMS, tölvupóst eða auðkennisforrit eins og DUO, Google Authenticator eða Microsoft Authenticator.
- Líffræðileg auðkenning eins og fingrafar, andlitsskönnun eða augnaskanni.
- Snjalltæki: Viðbótartæki eins og auðkenniskubbur eða USB-lykill með öryggislyklaforriti.
Þetta gerir það að verkum að jafnvel þó að óprúttinn aðili nái að stela lykilorði notandans, þá dugar það ekki til að komast inn í kerfið.
Kostir fyrir einstaklinga
MFA nýtist ekki bara fyrirtækjum heldur einnig einstaklingum í þeirra persónulega lífi. Hér eru nokkrir kostir þess:
- Aukið persónuvernd og netöryggi: Fjölþátta auðkenning dregur verulega úr líkum á að netárásarmenn geti komist í mikilvægar upplýsingar eins og bankareikninga, tölvupóst eða samfélagsmiðlareikninga.
- Vernd gegn lykilorðastuldi: Ef lykilorð er stolið, verður það ekki nóg til að fá aðgang, þar sem MFA krefst líka annars þáttar til auðkenningar.
- Bætt friðhelgi á netinu: Á tímum þar sem gögn og persónulegar upplýsingar eru dýrmætar, veitir fjölþátta auðkenning notendum aukna friðhelgi. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að viðkvæmum upplýsingum eins og læknisfræðilegum gögnum eða fjármálagögnum.
Kostir fyrir fyrirtæki
Fyrirtæki nýta sér fjölþátta auðkenningu til að verja sig gegn netárásum og tryggja að aðeins réttir notendur hafi aðgang að viðkvæmum upplýsingum. Fyrirtæki njóta meðal annars eftirfarandi kosta:
- Minni líkur á gagnaleka: Með MFA verður erfiðara fyrir utanaðkomandi að komast inn í kerfi og stela upplýsingum.
- Áreiðanleiki í viðskiptaumhverfi: Viðskiptavinir vilja vita að gögn þeirra eru varin. Með því að nota MFA tryggja fyrirtæki að þau geti staðið vörð um öryggi viðskiptavina.
- Fylgni við reglur: Í mörgum löndum er fjölþátta auðkenning orðin krafa til að uppfylla ákveðnar reglur, sérstaklega þegar kemur að vinnslu á persónugögnum.
Hvers vegna ekki að nota bara sterkt lykilorð?
Þó sterkt lykilorð sé mikilvægt, þá er það ekki nóg í sjálfu sér. Lykilorð geta lekið á ýmsan hátt s.s. í vefveiðum, árásum á gagnageymslur, og spillikóða. Fjölþátta auðkenning bætir við auka varnarlagi, sem tryggir að jafnvel þó að lykilorð fari á flakk hefur árásaraðilinn ekki óheftan aðgang að kerfunum.
Hvað með óþægindin?
Sumir notendur telja að fjölþátta auðkenning sé óþægileg, sérstaklega þegar þarf að staðfesta aðgang oft á dag. Þó það sé rétt að hún bætir við nokkrum skrefum í innskráningarferli, þá vegur öryggið sem hún veitir oftast upp á móti þessum óþægindum. Margir þjónustuveitendur bjóða líka upp á valkosti eins og að muna auðkenningarþáttinn á tilteknum tækjum, svo notendur þurfi ekki að staðfesta sig í hvert sinn sem þeir nota tækið.
Niðurstaða
Fjölþátta auðkenning er ein einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda sig gegn netárásum. Með því að nota fleiri en eina auðkenningaraðferð, gerir hún óprúttnum aðilum erfiðara fyrir að fá óleyfilegan aðgang að persónulegum eða fyrirtækjatengdum gögnum. Í heimi þar sem stafrænar upplýsingar verða sífellt dýrmætari og netöryggi er stöðugt í hættu, ætti fjölþátta auðkenning að vera sjálfsögð hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum.