Börn á internetinu
Internetið er orðið fastur hlutur í lífi lang flestra. Það á einnig við um börn sem alast upp með nánari tengingu við netið en fyrri kynslóðir gerðu. Þau alast upp með meira aðgengi að upplýsingum en áður hefur þekkst og er þar gríðarlegur fjársjóður af skemmtiefni búið til fyrir yngri börn.
Hætturnar leynast þó víða og er mikilvægt að ræða við börnin sín snemma um þær hættur sem geta leynst á internetinu.
Fyrst eru hér nokkur ráð sem foreldrar geta notfært sér til að gera netið að öruggari stað fyrir barnið sitt.
1. Takmarka auglýsingar, t.d. með því að nota forrit sem loka á auglýsingar. Þá eiga ekki að geta komið upp auglýsingar sem barnið getur smellt á til að komast á óæskilegar síður.
2. Notast við fyrirfram skilgreindan og samþykktan áhorfslista af myndböndum svo foreldrar og forráðamenn hafi meiri yfirsýn yfir hvað barnið getur horft á.
3. Virkja foreldrastillingar (e. parental control) á öllum þeim tækjum sem börn nota.
4. Ekki hafa kortaupplýsingar vistaðar þannig að hægt sé að nota þær nema að gefa aðra staðfestingu að nota megi kortið. Börn eru ekki meðvituð um hvað allir takkar í símanum gera og gætu eytt verulegum fjárhæðum ef ekki er takmörkun á.
Við hjá CERT-IS erum ekki sérhæfð í þessum málaflokki svo hér eru aðrar síður þar sem hægt er að fá góðar ábendingar og ráð hvernig er hægt að auka öryggi barna og ungmenna á netinu.